Svíar síðastir upp í A-deildina

Marcus Berg fagnar marki sínu í kvöld.
Marcus Berg fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Svíþjóð tryggði sér í kvöld sæti í efstu deild Þjóðadeildarinnar í fótbolta með 2:0-heimasigri á Rússlandi. Victor Lindelöf, varnarmaður Manchester United, og Marcus Berg skoruðu mörk Svía sem fóru upp fyrir Rússa með sigrinum og upp í A-deild.

Bæði lið enduðu með sjö stig í 3. riðli, en Svíar voru með betri úrslit innbyrðis og fara því áfram. Tyrkir voru þegar fallnir niður í C-deild. Portúgal, sem var þegar komið í undanúrslit, mætti föllnum Pólverjum í lokaleik A-deildarinnar í Portúgal og skildu liðin jöfn, 1:1. André Silva kom Portúgal yfir á 33. mínútu en Arkadiusz Milik jafnaði í seinni hálfleik. 

Pólland og Portúgal skildu jöfn.
Pólland og Portúgal skildu jöfn. AFP

Skotland er komið upp Í B-deildina eftir 3:2-sigur á Ísrael á heimavelli. Celtic-maðurinn James Forrest skoraði öll þrjú mörk skota, sem hafna þremur stigum fyrir ofan Ísrael á meðan Albanía fellur niður í D-deild. 

Serbar tryggðu sér einnig sæti í B-deildinni með 4:1-heimasigri á Litháen í 4. riðli. Rúmenía hafði betur gegn Svartfjallalandi í sama riðli, 1:0. 

Í D-deild skoraði Rene Joensen, leikmaður Grindavíkur, mark Færeyja í 1:1-jafntefli á útivelli gegn Möltu. FH-ingarnir Gunnar Nielsen, Brandur Olsen og Jákup Thomsen voru einnig í byrjunarliði Færeyinga og Kaj Leo Í Bartalsstovu, sem gekk í raðir Vals frá ÍBV á dögunum, spilaði í rúmar 20 mínútur.

Færeyingar hafna í þriðja sæti 3. riðils, en Kosóvó er komið upp í C-deild eftir öruggan sigur í riðlinum. Kosóvó vann sannfærandi 4:0-sigur á Aserbaídsjan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert