Útilokar ekki 48 lið á HM í Katar

Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. AFP

Forseti FIFA, Gianni Infantino, hyggst leggja til að liðunum í lokakeppni HM karla í knattspyrnu eftir fjögur ár verði fjölgað úr 32 í 48. Til stóð að þessi breyting tæki gildi á HM 2026 sem Bandaríkin, Kanada og Mexíkó munu halda. 

Infantiono segir frá þessu í viðtali við The Guardian. Hann segir að þessi breyting gæti þýtt að fleiri þjóðir þyrftu að halda keppnina ásamt Katar árið 2022 en finnst ólíklegt að það geti orðið að veruleika eins og staðan er núna. Grunnt er á því góða á milli ýmissa ríkja í þeim heimshluta og samskipti ríkjanna nokkuð flókin.

Umræðan um að lokakeppni HM verði stækkuð í 48 lið árið 2022 heyrðist fyrr á þessu ári, raunar í apríl þegar Knattspyrnusamband Suður-Ameríku lagði það til. Infantino segir við Guardian að hann sé ákveðinn í að láta reyna á hvort af þessari breytingu geti orðið. Gestgjöfunum í Katar hugnast þessar hugmyndir ekki vel enda fyrir löngu byrjaðir að skipuleggja viðburðinn með 32 lið í huga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert