Verðið að gera betur en Rússar

Gianni Infantino, forseti FIFA.
Gianni Infantino, forseti FIFA. AFP

Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, hefur komið þeim skilaboðum til Katara að fyrsta heimsmeistaramótið sem haldið verður í Mið-Austurlöndum verði að vera betra heldur en HM í Rússlandi í sumar en í dag eru fjögur ár þar til flautað verður til leiks á HM í Katar.

„Heimsmeistaramótið í Rússlandi var besta HM frá upphafi og HM 2022 verður að vera betra,“ sagði Infantino við fréttamenn en undirbúningurinn er í fullum gangi í Katar.

Átta leikvangar eru í byggingu í Katar og er talið að kostnaður við gerð þeirra verði 6,5 milljarðar dollara en talið er að Katar eyði 500 milljónum dollara á viku til að undirbúa heimsmeistaramótið.

FIFA hefur verið að gæla við að fjölga þjóðunum úr 32 í 48 sem taka þátt í úrslitakeppni HM eftir fjögur ár en það þykir þó líklegra að það verði áfram 32 lið sem keppa til úrslita um heimsmeistaratitilinn.

HM í Katar 2022 hefst 21. nóvember og lýkur með úrslitaleik 18. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert