Hegerberg fær fyrst kvenna Gullboltann

Ada Hegerberg með verðlaunagripinn sinn í París í kvöld.
Ada Hegerberg með verðlaunagripinn sinn í París í kvöld. AFP

Norska knattspyrnukonan Ada Hegerberg hlaut í kvöld Gullboltann sem besta knattspyrnukona ársins. Það er France Football sem stendur fyrir verðlaununum en þetta er í fyrsta sinn sem tímaritið veitir þessi virtu verðlaun í kvennaflokki.

Hegerberg var ein af fimmtán leikmönnum sem komu til greina fyrir kvöldið. Þær fimm sem urðu efstar voru Hegerberg, Pernille Harder, Sam Kerr, Marta og Dzsenifer Marozsán. Harder er liðsfélagi Söru Bjarkar Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg.

Hegerberg, sem er ekki nema 23 ára gömul, er stjörnuframherji Lyon og varð Evrópumeistari og Frakklandsmeistari með liðinu síðasta vor. Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag skaut Svava Rós Guðmundsdóttir henni þó ref fyrir rass þegar leikmannasamtökin í Noregi völdu lið ársins.

Eins og fyrr segir er það tímaritið France Football sem stendur fyrir kjörinu í Gullboltanum en í því taka þátt íþróttafréttamenn úti um allan heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert