Hegerberg getur unnið annan Gullbolta

Ada Hegerberg.
Ada Hegerberg. AFP

Ada Hegerberg, leikmaður norska landsliðsins í knattspyrnu og leikmaður franska Evrópumeistaraliðsins Lyon, getur hampað öðrum Gullbolta.

Hegerberg var á mánudaginn útnefnd knattspyrnukona ársins af France Football og fékk Gullboltann sem í fyrsta skipti var veittur líka í kvennaflokki.

Nú getur Hegerberg unnið norsku útgáfuna af Gullboltanum en norska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að feta í fótspor France Football og veita Gullboltann í karla- og kvennaflokki.

Hegerberg, Guro Reiten (Lillestrøm), og Maren Mjelde (Chelsea), eru tilnefndar í kvennaflokki og André Hansen (Rosenborg), Rune Almenning Jarstein (Hertha Berlin) og Joshua King (Bournemouth) í karlaflokki.

Kjörinu verður lýst í Stavanger 5. janúar.

mbl.is