Tapar ekki þessum leik

Tómas Ingi Tómasson.
Tómas Ingi Tómasson. mbl.is

Tómas Ingi Tómasson, knattspyrnumaður, yfirþjálfari yngri flokka Fylkis og aðstoðarþjálfari 21 árs karlalandsliðs Íslands í fótbolta, gekkst undir liðskiptaaðgerð á mjöðm fyrir um fjórum árum og hefur ekki náð sér síðan. Efnt verður til Tommadags á sunnudag til að styrkja Tomma og fjölskyldu hans, en hann vonast til þess að fá bót meina sinna í Þýskalandi á næstunni.

Tommi hefur verið á spítala lengst af síðan í apríl sl. Hann hefur borið þjáningar sínar í hljóði og var alfarið á móti því að bera veikindin á torg þegar fyrst var rætt um að halda sérstakan styrktardag. „Ég vildi ekki þessa athygli, en því er ekki að neita að tíminn frá fyrstu aðgerð hefur reynst okkur afskaplega erfiður og kostnaðurinn mikill,“ segir Tommi. „Góður og einlægur vilji býr að baki átakinu, ég er mjög þakklátur fyrir stuðninginn og því náði jáið yfirhöndinni.“

Styrktardagskrá á sunnudag

Tommadagurinn verður í Egilshöll nk. sunnudag. Landsliðsmennirnir fyrrverandi og þjálfararnir Eyjólfur Sverrisson, Rúnar Kristinsson og Arnar Grétarsson stjórna knattþrautum á opinni æfingu fyrir sex til tólf ára stúlkur og stráka kl. 9.45 til 10.45 og greiðir hvert barn 1.000 kr. fyrir æfinguna. Kl. 11 hefst úrslitaleikur Tommamótsins, þar sem pressulið Rúnars Kristinssonar tekur á móti landsliði Eyjólfs Sverrissonar. Á meðal leikmanna má nefna Guðna Bergsson, Inga Sigurðsson, Kristján Finnbogason, Birki Kristinsson, Willum Þór Þórsson og Ólaf Skúlason, en allir sem koma að leiknum greiða frjáls framlög við innganginn rétt eins og allir áhorfendur. Auk þess má leggja inn á styrktarreikning (528-14-300, kt. 0706694129).

Þegar Tómas fór í fyrstu aðgerðina í janúar 2015 var talið að hann myndi ná sér fljótt en annað kom á daginn. „Ég var með stöðuga verki en læknirinn trúði mér ekki og sagði bara áfram gakk. Ég hélt áfram uppbyggingu en var jafnóðum sleginn niður aftur. Eftir um tveggja ára baráttu við kerfið fékk ég loks lækni til þess að kanna málið og fór í fjölmargar skoðanir og sprautur. Mikil vökvasöfnun var við nárann og þurfti oft að tappa úr pokanum, mest um 360 millilítrum í einu, rúmlega kókdós.“

Hann segir að í raun hafi ekkert gerst. Menn hafi verið sammála um að eitthvað væri að, en það hafi ekki verið fyrr en Ragnar Jónsson bæklunarlæknir kom að málinu í ársbyrjun að brugðist hafi verið almennilega við. Hann hafi farið í aðra aðgerð í apríl, þá þriðju í ágúst og loks í september. „Í síðustu aðgerðinni fékk ég sýklalyf sem ég var með bráðaofnæmi fyrir og datt út en ég var á réttum stað, á gjörgæslu, og þeir náðu að kalla mig til baka.“

Sjá allt viðtalið við Tómas Inga á baksíðu Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert