De Jong sagður á leið til Parísar

Frenkie de Jong.
Frenkie de Jong. AFP

Hollenska ungstirnið Frenkie de Jong sem leikur með Ajax í Hollandi er gríðarlega eftirsóttur en mörg af bestu liðum Evrópu hafa borið víurnar í leikmanninn.

Manchester City og Barcelona hafa verið á höttunum eftir hollenska miðjumanninum en samkvæmt frétt hollenska blaðsins De Telegraaf er nú líklegt að De Jong gangi í raðir franska meistaraliðsins Paris SG.

Ajax hefur sett 75 milljóna evra verðmiða á miðjumanninn sem jafngildir 10,3 milljörðum íslenskra króna, og eru forráðamenn Paris SG sagði reiðbúnir að ganga að kröfum Ajax að því er fram kemur í De Telegraaf.

De Jong er 21 árs gamall og fékk fyrst tækifæri með Ajax fyrir tveimur árum. Hann hefur spilað fjóra leiki með hollenska landsliðinu.

mbl.is