Heimir að taka við liði í Katar?

Heimir Hallgrímsson gæti verið að taka við liði í Katar.
Heimir Hallgrímsson gæti verið að taka við liði í Katar. mbl.is/Eggert

Heimir Hallgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari í knattspyrnu, er kominn til Katar og gæti verið að taka við liði Al Arabi þar í landi.

Frá þessu er meðal annars greint á arabíska vefmiðlinum Kooora.com þar sem segir að Heimi sé ætlað að taka við af Hatem Almoadab sem ráðinn hafi verið til bráðabirgða í haust. Miðillinn segir jafnframt að Heimir verði á leik Al Arabi gegn Umm Salal í katörsku Stjörnudeildinni, eins og deildakeppnin þar í landi er kölluð, á morgun. Þannig geti hann byrjað að meta það hvernig mikilvægast sé að styrkja liðið í vetur.

Hlé verður gert á deildakeppninni í Katar frá og með 15. desember og er Al Arabi í 7. sæti af 12 liðum.

Heimir þjálfaði síðast íslenska landsliðið en hætti því starfi eftir heimsmeistaramótið í Rússlandi í sumar, eftir að hafa farið með liðinu í lokakeppni bæði EM og HM. Þess má geta að næsta heimsmeistaramót, árið 2022, fer einmitt fram í Katar.

Vefmiðillinn Fótbolti.net segir í frétt sinni um málið að samkvæmt heimildum síðunnar þá hafi Heimir farið frá Íslandi í vikunni til viðræðna við erlent félag.

Samkvæmt Wikipedia-síðu Al Arabi hefur liðið sjö sinnum orðið katarskur meistari, síðast árið 1997. Í Katar er einnig leikið í fjórum bikarkeppnum og vann Al Arabi sinn síðasta titil árið 2011. Liðið hefur einu sinni leikið í Meistaradeild Asíu en það var árið 2012.

Flestir leikmanna Al Arabi eru heimamenn en í leikmannahópnum má einnig finna leikmenn frá Kólumbíu, Brasilíu, Írak og Jemen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert