Sara sýnir stöðugleika

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Ljósmynd/Wolfsburg

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði og leikmaður Þýskalandsmeistara Wolfsburg, styrkir enn stöðu sína í hópi bestu knattspyrnukvenna heims.

Í gær birti enski fjölmiðillinn The Guardian hluta af kosningu sinni á 100 bestu knattspyrnukonum í heiminum á árinu 2018 og þar kom fram að Sara Björk varð í 31. sæti í kosningunni að þessu sinni.

Í umfjöllun um Söru er sagt að sem fyrr hafi hún sýnt mikinn stöðugleika, verið í stóru hlutverki hjá Wolfsburg og verið liðinu sérstaklega mikilvæg í Meistaradeild Evrópu. Þá hafi hún átt stóran þátt í framgöngu íslenska landsliðsins sem hafi verið nærri því búið að koma í veg fyrir að Þýskaland kæmist í lokakeppni HM.

Þrjú ár í allra fremstu röð

Þetta er í fyrsta skipti sem Guardian birtir slíkan lista en fyrir ári var blaðið í samvinnu við vefinn The Offside Rule með sambærilegt kjör fyrir árið 2017. Í þeirri kosningu hafnaði Sara í 43. sæti í kosningu.

Hún hefur tvö undanfarin ár, 2016 og 2017, verið í 55 manna heimsúrvali FIFPro, samtaka atvinnuknattspyrnumanna, og verið þar í bæði skiptin í hópi 15 bestu miðjumanna heims. Kosning FIFPro fyrir árið 2018 fer fram á fyrstu vikum komandi árs og niðurstöðurnar þar eru jafnan birtar í byrjun mars.

Þá hafnaði Sara Björk í 19. sæti í kjöri UEFA og Samtaka evrópskra íþróttafjölmiðla, ESM, á bestu knattspyrnukonu Evrópu árið 2016.

Sjá alla greinina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »