Ragnar fékk rautt í hasarleik

Sverrir Ingi Ingason og Ragnar Sigurðsson spila saman í vörn …
Sverrir Ingi Ingason og Ragnar Sigurðsson spila saman í vörn Rostov. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingaliðið Rostov mátti þola dýrt tap þegar liðið heimsótti fallbaráttulið Krilia Sovetov í rússnesku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Óhætt er að segja að mikið hafi gengið á í leiknum.

Sovetov komst yfir með marki úr vítaspyrnu á 11. mínútu, en missti sóknarmann af velli með sitt annað gula spjald rétt áður en flautað var til leikhlés. Rostov reyndi allt til að jafna leikinn, en á 82. mínútu fékk Ragnar Sigurðsson að líta beint rautt spjald. Samkvæmt færslu á Twitter-síðu Rostov var farinn að færast mikill hiti í leikinn á þessum tíma.

Það virðist heldur betur hafa verið raunin, því aðeins tveimur mínútum eftir að Ragnar var sendur í sturtu fór liðsfélagi hans Aleksandar Gatcan sömu leið eftir að hafa fengið sitt annað gula spjald. Hann er landsliðsmaður Moldóvu sem er einmitt með Íslandi í riðli fyrir undankeppni EM 2020. Hafandi verið einum fleiri í rúman hálftíma en nú einum færri náði Rostov ekki að jafna leikinn og tapaði því 1:0.

Auk Ragnars voru þeir Sverrir Ingi Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson í byrjunarliði Rostov og spiluðu báðir allan leikinn. Viðar Örn Kjartansson kom inn af bekknum á 65. mínútu, en Rostov hefði með sigri getað jafnað CSKA Moskvu að stigum í 3.-4. sæti deildarinnar. Liðið situr hins vegar í sjötta sæti, en Sovetov var fyrir leikinn í næstneðsta sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert