Nístingssár niðurstaða Íslendingaliðsins

Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði 20 mörk á leiktíðinni en náði …
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði 20 mörk á leiktíðinni en náði ekki að skora í kvöld. Ljósmynd/aafk.no/Srdan Mudrinic

Íslendingaliðið Aalesund var grátlega nálægt því að vinna sér sæti í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en verður að gera sér að góðu að leika áfram í næstefstu deild á næsta ári.

Aalesund virtist lengi vel ætla að komast beint upp í úrvalsdeild, sem annað tveggja efstu liðanna í 1. deild, en endaði að lokum í 3. sæti og fór í erfitt umspil. Þar sló liðið út tvo andstæðinga áður en það þurfti að mæta Stabæk sem hafnað hafði í þriðja neðsta sæti úrvalsdeildarinnar.

Stabæk vann fyrri leik liðanna 1:0 en liðin gerðu svo 1:1-jafntefli á heimavelli Aalesund í kvöld. Aalesund komst í 1:0 á 30. mínútu og því var staðan jöfn í einvíginu þar til á 71. mínútu þegar leikmaður Aalesund skoraði sjálfsmark. Aalesund hefði þá þurft tvö mörk í viðbót til þess að vinna einvígið, vegna reglu um mörk á útivelli, en fleiri mörk voru ekki skoruð.

Fjórir Íslendingar voru í byrjunarliði Aalesund í kvöld, þeir Daníel Leó Grétarsson, Adam Örn Arnarson, Aron Elís Þrándarson og Hólmbert Aron Friðjónsson. Aron Elís, sem var meiddur fyrir leikinn, þurfti að fara af velli á 38. mínútu. Hólmberti var svo skipt af velli á 76. mínútu, en hann skoraði 20 mörk í 30 deildarleikjum fyrir Aalesund á leiktíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert