Real marði sigur á botnliðinu

Gareth Bale skoraði sigurmarkið.
Gareth Bale skoraði sigurmarkið. AFP

Real Madrid marði 1:0-sigur á botnliði Huesca í spænsku efstu deildinni í knattspyrnu rétt í þessu en það var Gareth Bale sem skoraði sigurmark leiksins.

Walesverjinn gerði það strax á 8. mínútu með glæsilegu viðstöðulausu skoti en þetta var hans fyrsta deildarmark í tíu leikjum. Madrídingar fengu nokkur færi til viðbótar og var Bale nálægt því að skora sitt annað mark eftir um klukkutíma leik en eftir þá pressuðu heimamenn stíft.

Thibaut Courtois þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum og varði hann til að mynda glæsilega frá Moi Gomez í uppbótartíma áður en Dani Carvajal bjargaði á eigin marklínu rétt fyrir leikslok til að tryggja stigin þrjú fyrir Real sem skýst þar með upp í fjórða sæti deildarinnar. Liðið hefur nú 26 stig og er fimm stigum frá toppliði Barcelona.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert