Ronaldo hvetur Messi til að spila á Ítalíu

Cristiano Ronaldo segist njóta þess að vera hjá Juventus.
Cristiano Ronaldo segist njóta þess að vera hjá Juventus. AFP

Portúgalinn Cristian Ronaldo hvetur Argentínumanninn Lionel Messi til að reyna fyrir sér á Ítalíu, líkt og Ronaldo hefur nú gert. 

Báðir hafa þessir kappar verið heiðraðir fimm sinnum hvor þegar Gullboltanum hefur verið úthlutað en ferill þeirra með félagsliðum er nokkuð frábrugðinn. Messi hefur verið allan sinn feril hjá Barcelona en Ronaldo sló í gegn hjá Sporting í Lissabon og fór þaðan til Manchester United. Hann var níu tímabil með Real Madrid áður en hann söðlaði um í sumar og fór til Juventus. 

„Ég myndi vilja sjá hann (Messi) koma til Ítalíu einn góðan veðurdag. Ég vona að hann muni taka slíkri áskorun eins og ég gerði en ef hann er hamingjusamur í Barcelona þá virði ég það,“ hafa fjölmiðlar eftir Ronaldo sem mun leika í Sviss gegn Young Boys í Meistaradeildinni á miðvikudag. 

Kannski þarf hann á einhverju meiru að halda. Fyrir mér er lífið áskorun, mér líkar það vel og vil gleðja fólk. Hann er stórkostlegur leikmaður og góð persóna en ég sakna hans ekki eða spænska boltans. Ítalía er minn staður í dag og ég er hamingjusamur,“ sagði Ronaldo meðal annars. 

Lionel Messi
Lionel Messi AFP
mbl.is