Porto hafði betur í markaleik

Leikmenn Porto fagna marki í kvöld.
Leikmenn Porto fagna marki í kvöld. AFP

Tveimur leikjum er lokið í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld en D-riðillinn kláraðist í kvöld.

Porto var þegar búið að tryggja sér sigur í riðlinum og Schalke var öruggt með annað sætið. Baráttan stóð um þriðja sætið sem gefur sæti í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar stóð á milli Galatasaray og Lokomotiv Moskva.

Porto hrósaði 3:2 útisigri gegn Galatasaray. Felipe, Moussa Marega og Sergio Oliveira gerðu mörkin fyrir Porto en Sofiane Feghouli og Eren Derdiyok settu mörkin fyrir Galatasaray. Feghouli fékk gullið tækifæri til að jafna metin fyrir Galatasaray en honum brást bogalistin af vítapunktinum.

Í Þýskalandi hafði Schalke betur á Lokomoiv Moskva 1:0 með marki frá Alessandro Schoepf undir lok leiksins.

Porto endaði með 16 stig, Schalke 9, Galatasaray 4 og Lokomotiv Moskva 3.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert