Stutt gaman hjá Touré í Grikklandi

Yaya Touré.
Yaya Touré. AFP

Hún var stutt dvölin hjá Yaya Touré með gríska knattspyrnuliðinu Olympiacos en félagið hefur rift samningi sínum við Fílabeinsstrendinginn.

Touré gekk í raðir Olympiacos i september eftir að samningur hans við Manchester City rann út eftir tímabilið. Hann náði ekki að heilla forráðamenn gríska liðsins í þeim fimm leikjum sem hann spilaði með félaginu og hann hefur nú yfirgefið félagið.

Touré, sem er 35 ára gamall, hefur ekkert spilað með Olympiacos-liðinu frá því í byrjun nóvember og eftir æfingu liðsins í dag kvaddi hann liðsfélaga sína.

Miðjumaðurinn vann þrjá Englandsmeistaratitla með Manchester City eftir að hann kom til félagsins frá Barcelona árið 2010. Hann var gríðarlega vinsæll á meðal stuðningsmanna City en eftir að Pep Guardiola tók við stjórastarfinu hjá Manchester-liðinu fækkaði tækifærum hans ört með liðinu.

mbl.is