Þriðji íslenski þjálfarinn til Færeyja

Heiðar Birnir Thorleifsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs B71 frá Sandey sem leikur í B-deildinni í knattspyrnu í Færeyjum. 

Heimasíða félagsins greinir frá þessu en Heiðar mun einnig verða yfirþjálfari yngri flokka. Í fréttinni kemur fram að Heiðar, sem er 39 ára gamall Ísfirðingur, hafi komið að þjálfun yngri flokka hjá nokkrum íslenskum félögum eins og Val, KR, Þrótti og Dalvík. 

Heiðar hefur einnig farið fyrir Coerver coaching hérlendis sem er hugmynda- og æfingaáætlun fyrir ungt knattspyrnufólk. 

B71 hafnaði í áttunda sæti af tíu liðum í færeysku B-deildinni á nýliðnu keppnistímabili.

Fréttin á heimasíðu B71

Færeyingar horfa til Íslands um þessar mundir í leit að þjálfurum. Heimir Guðjónsson gerði HB að meisturum í ár og á dögunum réði NSÍ frá Runavik Skagamanninn Guðjón Þórðarson til starfa. Annar kunnur Skagamaður, Sigurður Jónsson, fékk tilboð frá Færeyjum í haust samkvæmt fréttum netmiðilsins Fótbolta.net. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert