Með mark og stoðsendingu gegn Evrópumeisturunum

Arnór í baráttu við Brasilíumanninn Marcelo.
Arnór í baráttu við Brasilíumanninn Marcelo. AFP

Stjarna Skagamannsins unga Arnórs Sigurðssonar skein skært á Santiago Bernabeu-vellinum í Madrid í kvöld þegar rússneska liðið CSKA Moskva skellti Evrópumeisturum Real Madrid 3:0 í lokaumferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Arnór skoraði þriðja mark sinna manna með hnitmiðuðu skoti frá vítateigslínunni en hann lagði upp fyrsta markið með glæsilegri sendingu. Arnór fékk heiðursskiptingu á 3. mínútu í uppbótartíma en Hörður Björgvin Magnússon lék allan tímann og stóð vaktina með glæsibrag í hjarta varnarinnar. CSKA vann þar með báðar viðureignir liðanna en fyrri leiknum í Moskvu lyktaði með 1:0 sigri rússneska liðsins.

Annar markahæsti Íslendingurinn

Þetta var annað mark Arnórs í Meistaradeildinni en þessi 19 ára gamli Skagastrákur skoraði í tapleik á móti Roma. Hann er þar með orðinn annar markahæsti Íslendingurinn í Meistaradeildinni. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði 7 mörk en þriðji Íslendingurinn sem hefur skorað í Meistaradeildinni er Alfreð Finnbogason sem skoraði fyrir Olympiacos gegn Arsenal á Emirates-vellinum í London.

En því miður dugði þessi magnaði sigur CSKA Moskva ekki til að tryggja liðinu þriðja sætið og þar með farseðil í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar þar sem Viktoria Plzen vann 2:1 sigur gegn Roma. Liðin enduðu bæði með 7 stig en tékkneska liðið hafði betur í innbyrðisviðureignum.

mbl.is