Höfuðhöggið kostar enn lengri fjarveru

María Þórisdóttir í landsleik.
María Þórisdóttir í landsleik.

Útlit er fyrir að María Þórisdóttir, landsliðskona Noregs í knattspyrnu og leikmaður ensku meistaranna Chelsea, verði frá keppni í allt að þrjá mánuði í viðbót en hún hefur þegar þurft að hvíla í hálfan annan mánuð eftir að hafa fengið höfuðhögg í leik gegn Liverpool.

Það gerðist 28. október en hún þurfti þá að fara af velli í leik liðanna með heilahristing eftir harðan árekstur við mótherja. Í síðustu viku var María byrjuð að æfa á ný og útlit fyrir að hún færi að spila á ný en nú virðist hafa komið bakslag í það.

Hún fór til sérfræðings í London í gær. „Öll próf voru jákvæð, það er ekkert óeðlilegt á ferðinni. En sérfræðingurinn sagði að ég yrði að búa mig undir það að það gætu liðið þrír mánuðir þar til ég færi að spila á ný, rétt eins og gerðist í fyrri skiptin sem ég fékk heilahristing," sagði María við VG í dag.

Þetta er í þriðja skipti á ferlinum sem María fær heilahristing og hún ætlar að gefa sér þann tíma sem þarf. Hún gerir ekki ráð fyrir að taka þátt af fullum krafti í landsliðsverkefnum norska landsliðsins í janúarmánuði.

„Þau eru fullsnemma á ferðinni, hvað það varðar að spila, en ég verð vonandi nógu hress til að geta verið með hópnum og æft smávegis. Ég hef ekki fundið fyrir neinu undanfarna tvo daga og vonandi heldur það áfram þannig. Ég get gert alla hversdagslegu hlutina svo þetta háir mér lítið. En ef ég fer að hreyfa mig of mikið líður mér ekki vel og fæ svima,“ sagði María.

Hún er 25 ára gömul, leikur sem varnarmaður og er dóttir Þóris Hergeirssonar, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handknattleik. María leikur nú sitt annað tímabil með Chelsea eftir að hafa spilað með heimaliði sínu Klepp allan ferilinn fram að því. Hún á að baki 31 leik með norska landsliðinu og 51 leik með yngri landsliðum Noregs.

María vann meistaratitilinn með Chelsea síðasta vetur en liðið er nú í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum á eftir Arsenal og Manchester City.

Á myndinni til hægri hér að neðan er Maríu fylgt af velli í leiknum umrædda við Liverpool:

María  fagnar í leik með Chelsea:




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert