Óttar Magnús genginn til liðs við Mjällby

Óttar Magnús Karlsson.
Óttar Magnús Karlsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttar Magnús Karlsson er genginn til liðs við Mjällby sem mun leika í sænsku B-deildinni í knattspyrnu á næsta tímabili en þetta staðfestir félagið á heimasíðu sinni. Óttar gerði tveggja ára samning við félagið.

Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari Víkings og Breiðabliks, kom liði Mjällby upp úr C-deildinni á síðustu leiktíð og er nú búinn að tryggja sér krafta tveggja Íslendinga fyrir næsta tímabil. Gísli Eyjólfsson mun leika með liðinu að láni frá Breiðabliki.

Óttar Magnús er 21 árs sóknarmaður og uppalinn hjá Víkingum en hann var á mála hjá unglingaliði Ajax um þriggja ára skeið áður en hann sneri aftur í Víkinga og lék vel með liðinu í Pepsi-deildinni sumarið 2016, spilaði 20 leiki og skoraði sjö mörk.

Hann gekk svo til liðs við Molde í Noregi og spilaði fyrir Trelleborg í Svíþjóð á síðustu leiktíð á lánssamningi. Óttar hefur leikið fimm A-landsleiki fyrir Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert