Rabiot vekur reiði PSG - Verður á bekknum

Adrien Rabiot hóf feril sinn með PSG árið 2012.
Adrien Rabiot hóf feril sinn með PSG árið 2012. AFP

„Afleiðingarnar eru alveg á hreinu. Hann verður á varamannabekknum hér eftir,“ segir yfirmaður knattspyrnumála hjá PSG um franska miðjumanninn Adrien Rabiot sem virðist hafa spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.

Rabiot er með samning við PSG sem rennur út næsta sumar og þessi 23 ára gamli landsliðsmaður hefur ekki áhuga á að gera annan samning við félagið. Antero Henrique, yfirmaður knattspyrnumála hjá PSG, virðist á því að Rabiot og umboðsmaður hans hafi teymt forráðamenn PSG á asnaeyrunum og það útskýrir ummæli hans hér að ofan. Henrique sagði í dag að Rabiot hefði staðfest að hann ætlaði ekki að vera áfram hjá félaginu, áður en hann fullyrti að leikmaðurinn yrði á varamannabekknum um ókomna tíð eins og fyrr segir.

Rabiot hefur verið orðaður við Barcelona og Liverpool en svo gæti farið að leikmaðurinn verði seldur í janúar í ljósi yfirlýsinga Henrique. Að öðrum kosti fer hann frítt frá PSG næsta sumar.

Hollenski miðillinn De Telegraaf segir að PSG sé þegar búið að finna mann í stað Rabiot og að félagið hafi gert 75 milljóna evra tilboð í hollenska landsliðsmanninn Frenkie de Jong hjá Ajax.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert