Tímamótasamningur vegna andlegrar heilsu

Normaðurinn Torstein Andersen Aase er meðal þeirra sem hafa hætt …
Normaðurinn Torstein Andersen Aase er meðal þeirra sem hafa hætt í fótbolta vegna þunglyndis, en hann hætti árið 2013, þá 21 árs gamall og leikmaður Stabæk.

Norsk knattspyrnufélög hafa gert tímamótasamning við leikmannasamtökin í Noregi sem gengur út á að hlúa að andlegri heilsu leikmanna.

Þetta kemur fram á vef alþjóðlegu leikmannasamtakanna, FIFPro. Með samningnum skuldbinda norsku félögin sig meðal annars til þess að hafa til taks óháðan aðila sem leikmenn geta leitað til ef þeir finna fyrir kvíða eða þunglyndi. Þessu hafa leikmannasamtökin barist fyrir enda þykir ljóst að leikmenn leiti ekki til þjálfara síns með slík mál, þar sem þeir óttist til að mynda að fá þar með að spila minna en ella.

„Við vitum að leikmenn segja ekkert við þjálfarann ef þeir glíma við andlega erfiðleika. Þetta er algjör tímamótasamningur,“ sagði Joachim Walltin, formaður norsku leikmannasamtakanna.

Leikmannasamtökin og samtök knattspyrnufélaga í Noregi hafa einnig komist að samkomulagi um að félögin beri ábyrgð á því að aðstoða leikmenn við að gera áætlanir og íhuga hvað taki við hjá sér eftir að knattspyrnuferlinum lýkur, sem Walltin segir einnig mikilvægt.

Samkomulagið á milli aðila gildir til apríl 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert