„Yngsti markaskorarinn“ reyndist ljúga

Gourav Mukhi með þjálfara sínum á æfingu Jamshedpur. Hann var …
Gourav Mukhi með þjálfara sínum á æfingu Jamshedpur. Hann var sagður 16 ára gamall þegar hann skoraði fyrir liðið í haust. Ljósmynd/@JamshedpurFC

Indverski knattspyrnumaðurinn Gourav Mukhi hefur verið úrskurðaður í sex mánaða leikbann af indverska knattspyrnusambandinu eftir að hann sagði ósatt um aldur sinn.

Mukhi vakti athygli í október þegar hann skoraði í 2:2-jafntefli Jamshedpur við Bengaluru í indversku úrvalsdeildinni. Mukhi var þá sagður yngsti markaskorari deildarinnar frá upphafi enda talið að hann væri 16 ára, en þegar málið var kannað kom í ljós að Mukhi er svo sannarlega eldri.

Aganefnd indverska knattspyrnusambandsins úrskurðaði Mukhi í bann og byggði þann úrskurð á játningu Mukhi, sönnunargögnum frá honum og fullyrðingum manns sem þjálfaði U17-landslið Indlands árið 2015. Þetta er nefnilega í annað sinn sem Mukhi tekur þátt í svikamáli vegna aldurs. Árið 2015 viðurkenndu Mukhi og þrír liðsfélagar hans í U15-liði Jharkhand að þeir hefðu verið orðnir of gamlir til að spila með liðinu þegar það varð indverskur meistari. Þetta viðurkenndu þeir eftir að hafa verið valdir í U17-landsliðsæfingabúðir fyrir HM hið sama ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert