Helgi ráðinn landsliðsþjálfari Liechtenstein

Helgi Kolviðsson
Helgi Kolviðsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Kolviðsson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Liechtenstein í knattspyrnu en frá þessu er greint á vef knattspyrnusambands Liechtenstein í dag.

Samningur Helga er til tveggja ára og tekur hann til starfa þann 1. janúar. Helgi var aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í tvö ár frá 2016-2018 en hann lét af störfum eins og Heimir Hallgrímsson eftir heimsmeistaramótið í Rússlandi í sumar.

Helgi tekur við þjálfun landsliðsins af Austurríkismanninum Rene Pauritsch og fyrsti leikur þess undir hans stjórn verður gegn Grikkjum í mars. Liechten­stein sem er í 181. sæti heimslist­ans er í riðli með Grikklandi, Ítalíu, Bosníu, Finnlandi og Armeníu í undankeppni EM 2020.

Helgi, sem er 47 ára gamall og lék 30 A-landsleiki, hefur þjálfað í Þýskalandi og Austurríki um árabil. Hann þjálfaði þýska liðið Pfullendorf og austurrísku liðin Austria Lustenau, Wiener Neustadt og Ried áður en hann tók við starfi aðstoðarlandsliðsþjálfara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert