Níutíu mínútur í vinnuna í öðru landi

Helgi Kolviðsson, nýráðinn landsliðsþjálfari Liechtenstein.
Helgi Kolviðsson, nýráðinn landsliðsþjálfari Liechtenstein. mbl.is/Hari

„Það er ekki slæmt að taka við starfi landsliðsþjálfara og vera níutíu mínútur að keyra í vinnuna," sagði Helgi Kolviðsson við mbl.is en hann var fyrr í dag kynntur til sögunnar sem næsti þjálfari karlalandsliðs Liechtenstein í knattspyrnu.

Hann tekur til starfa 1. janúar og er ráðinn til næstu tveggja ára. „Þetta gekk allt upp, ég var númer eitt á þeirra óskalista og „tikkaði í öll boxin.“ Þeir vildu erlendan þjálfara sem væri þýskumælandi og þekkti til á þessum slóðum. Ég bjó í sex ár í Lustenau í Austurríki, rétt hjá Liechtenstein, og var um tíma með tvo leikmenn þaðan í mínu liði. Það býðst ekki oft tækifæri til að þjálfa landslið, hvað þá þegar það er staðsett svona skammt frá heimilinu," sagði Helgi, sem er búsettur syðst í Þýskalandi og er einungis hálfan annan tíma að keyra þaðan til litla alparíkisins Liechtenstein sem er aðeins 160 ferkílómetrar að stærð og kúrir í dalverpi á landamærum Sviss og Austurríkis. Til samanburðar telst Hafnarfjörður vera 143 ferkílómetrar og Mosfellsbær 185.

Margt sem heillar

„Mér leist mjög vel á það sem þeir höfðu fram að færa," sagði Helgi um fundahöldin með forráðamönnum knattspyrnusambands Liechtenstein. „Þetta er skemmtilegt verkefni, landið er lítið og stutt í allt. Öll yngri landsliðin æfa oft saman, ég mun koma að því líka, og það er verið að byggja upp til framtíðar. Sambandið er að stofna sína eigin akademíu frá og með næsta hausti og er sjálft með tvo velli þar sem liðin æfa. Það er því margt sem heillar."

Helgi ráðinn landsliðsþjálfari Liechtenstein

Helgi tekur við landsliði sem er númer 52 af 55 Evrópulöndum á heimslista UEFA og situr í 181. sæti listans. „Við erum ekki með marga atvinnumenn til að velja úr og flestir spila sem hálfatvinnumenn í neðri deildunum í Sviss. Kosturinn við það er að ég get fylgst mjög vel með strákunum og hjálpað þeim eftir þörfum. Liechtenstein er með marga unga og efnilega leikmenn en forráðamennirnir eru raunhæfir í sínum væntingum og vita vel að þróunin tekur tíma."

Heimir Hallgrímsson og Helgi Kolviðsson unnu saman með íslenska landsliðið …
Heimir Hallgrímsson og Helgi Kolviðsson unnu saman með íslenska landsliðið frá 2016 til 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gaman að fara aftur til Parma

Liechtenstein er í riðli með Ítalíu, Bosníu, Grikklandi, Finnlandi og Armeníu í undankeppni EM og fyrstu verkefni Helga verða að stýra liðinu gegn Grikkjum og Ítölum í keppninni í marsmánuði.

„Riðillinn er skemmtilegur, ekki síst að mæta Ítölunum. Bosnía og Grikkland eru með fín lið og ég þekki vel til Finnanna. Svo er Armenía líka í riðlinum og Liechtenstein gerði jafntefli við þá í Þjóðadeildinni í haust.

Byrjunin er frábær, fyrst er heimaleikur gegn Grikkjum og svo förum við til Ítalíu. Leikurinn þar er spilaður í Parma sem ég þekki heldur betur vel eftir að hafa æft þar tvisvar með íslenska landsliðinu á síðustu árum.

Við munum kalla saman stóran hóp til æfinga í janúar og febrúar. Það verða engir leikir spilaðir en ég get skoðað leikmennina vel. Undirbúningurinn er stuttur og ég verð væntanlega með svipaðan kjarna og hefur verið í liðinu að undanförnu. Ég er þó með nokkra leikmenn til viðbótar í huga og ætla að skoða alla sjálfur og byggja þetta á mínu mati á þeim," sagði Helgi.

Hann veit ekki ennþá hverjir hans helstu aðstoðarmenn verða. „Ég mæti í byrjun janúar og þá setjumst við niður og förum yfir málin. Nokkrir þeirra sem unnu með fráfarandi þjálfara eru áfram í starfi hjá sambandinu og ég ætla að byrja á að kynnast þeim og sjá til hvernig þeir eru," sagði Helgi.

Helgi Kolviðsson lék 30 landsleiki og er hér í leik …
Helgi Kolviðsson lék 30 landsleiki og er hér í leik gegn Rússum í Moskvu. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Félagsliðin ekki spennandi vegna fyrirtækisins

Hann hefði getað tekið við félagsliði á þessum slóðum en fannst það ekki nægilega spennandi. „Já, ég fékk tilboð frá liðum hérna í Þýskalandi og Austurríki en ekkert nógu spennandi til þess að ég væri tilbúinn að fara í það. Þá hefði ég þurft að hætta með mitt fyrirtæki sem ég hef verið að byggja upp og er mikið tengt fótboltanum. Starf landsliðsþjálfara er þess eðlis að ég get haldið áfram mínu striki á því sviði og það er mér mjög mikilvægt."

Helgi var aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Íslands undanfarin tvö ár, þar til hann og Heimir Hallgrímsson hættu störfum í ágúst, eftir heimsmeistaramótið í Rússlandi. „Ég hef lært mikið á undanförnum árum, fyrst með að fá að horfa yfir axlirnar á Heimi og Lars Lagerbäck, og síðan að vinna með Heimi með landsliðið í þessi tvö ár. Við Heimir erum í góðu sambandi áfram og höfum rætt mikið um okkar störf, hans mál í Katar og mín mál varðandi Liechtenstein," sagði Helgi Kolviðsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert