Kjartan Henry laus frá Ungverjalandi

Kjartan Henry Finnbogason í landsleik Íslands og Perú í mars.
Kjartan Henry Finnbogason í landsleik Íslands og Perú í mars. AFP

Framherjinn Kjartan Henry Finnbogason hefur fengið sig lausan frá ungverska félaginu Ferencváros eftir að hafa gengið í raðir þess í sumar.

Kjartan Henry er 32 ára gamall. Hann yfirgaf Horsens í Danmörku og flutti sig um set til Ungverjalands, en Ferencváros er sigursælasta félag í sögu landsins. Liðið hef­ur 29 sinn­um orðið meist­ari þar í landi og 23 sinn­um bikar­meist­ari. Liðið spilaði í fyrstu umferð forkeppni Evrópudeildarinnar en datt út fyrir Maccabi Tel Aviv.

Ekki fékk Kjartan þó mikið að spila. Var aldrei í byrjunarliði liðsins í deildinni en kom níu sinnum inn á sem varamaður. Hann skoraði hins vegar sex mörk í bikarkeppninni. Fréttir frá Ungverjalandi herma að Kjartan hafi óskað eftir því að fá samningi sínum rift vegna lítils spiltíma, er nú laus allra mála og í leit að nýju liði.

mbl.is