Sandra lenti á vegg – „Feimnismál í íþróttum“

Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen. mbl.is/Golli

„Ég er mjög spennt að fara út og takast á við þessa áskorun,“ sagði Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag eftir að búið var að opinbera félagaskipti hennar frá Þór/KA til Leverkusen í Þýskalandi. Hún skrifaði undir samning við þýska félagið út tímabilið 2020.

Sandra María þekk­ir til liðsins, en hún fór þangað á láni seinni hluta vetr­ar 2016 þegar und­ir­bún­ings­tíma­bilið var í full­um gangi hér heima. Hún sneri svo aft­ur til Þórs/​KA um vorið, en mun nú al­farið kveðja Ak­ur­eyr­arliðið.

„Ég þekki vel til deildarinnar, veit að þar eru mikil gæði enda spilað þarna áður. Leverkusen er með nýtt æfingasvæði, nýjan keppnisvöll og nýja þjálfara síðan ég spilaði þarna síðast en mín tilfinning er mjög góð. Það er allt til staðar þarna,“ sagði Sandra, sem er því ekki beint að fara í umhverfi sem hún þekkir þrátt fyrir að hafa spilað áður með liðinu.

„Það má segja að þetta séu svolítið nýjar aðstæður. Það eru sex leikmenn ennþá hjá liðinu sem ég spilaði með 2016. Það er eiginlega það. En að sjálfsögðu þekki ég vel til deildarinnar og leikmannanna þar og ég held að þetta sé rétt skref á ferlinum á þessum tímapunkti. Mér finnst liðið líta mjög vel út. Þetta er frekar ungt lið og mikið af efnilegum leikmönnum,“ sagði Sandra, sem æfði með liðinu í haust og í kjölfarið fóru viðræður í gang.

„Við tókum fund áður en ég fór heim þar sem þau vildu bjóða mér samning. En ég tók mér tíma í að skoða möguleikana sem eru í boði. Það var áhugi hér heima og líka úti, svo ég tók mér góðan tíma. Það voru nokkur lönd í boði en ég ákvað á endanum að skella mér til Þýskalands og ég held að það sé rétt skref. Þýska deildin heillaði mig mest.

Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA lyfti Íslandsmeistarabikarnum árið 2017.
Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA lyfti Íslandsmeistarabikarnum árið 2017. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Blendnar tilfinningar en gott að taka skrefið

Le­verku­sen er í 10. sæti af 12 liðum í þýsku 1. deild­inni með 10 stig eft­ir 13 leiki, þrem­ur stig­um fyr­ir ofan fallsvæðið. Deild­ar­keppn­in hefst aft­ur eft­ir vetr­ar­hlé um miðjan fe­brú­ar. „Aðalmarkmiðið er að tryggja áframhaldandi sæti í deildinni, en líka að komast ofar. Það er stutt á milli liða og það er allt opið fyrir því að klifra ofar.“

Sandra María hef­ur all­an sinn fer­il hér á landi leikið með Þór/​KA, alls 116 leiki í efstu deild þar sem hún hef­ur skorað 73 mörk. Auk þess að hafa verið lánuð til Le­verku­sen árið 2016 fór hún að láni til Slavia Prag seinni hluta vetr­ar í fyrra, en segir skrítið að vera að endanlega að yfirgefa æskuslóðirnar og semja við nýtt félag.

„Þetta eru blendnar tilfinningar. Auðvitað var alltaf markmiðið síðan ég var lítil að fara í atvinnumennsku. En að vera ekki að fara að taka þátt í baráttunni með liðinu næsta sumar er líka erfitt. En það er kannski bara gott fyrir mig að taka næsta skref og gott fyrir Þór/KA að fá fleiri leikmenn upp og gefa þeim tækifæri. Ég mun fylgjast mjög vel með,“ sagði Sandra.

Aðspurð hvort möguleiki sé að hún verði lánuð til Þórs/KA næsta sumar, þar sem Þýskaland er með vetrardeild, á Sandra ekki von á því. Hún hafi gott af því að fá smá frí.

„Ég er búin að vera á mikilli keyrslu síðustu ár, farið tvisvar sinnum út á undirbúningstímabilinu heima og farið svo beint að spila. Ég held að í sumar verði kominn tími til þess að anda aðeins og byggja mig upp.“

Sandra María Jessen á landsliðsæfingu.
Sandra María Jessen á landsliðsæfingu. mbl.is/Golli

Erfitt að missa af landsliðssæti

Sandra María hefur spilað 24 leiki með íslenska A-landsliðinu og fór meðal annars með liðinu á Evrópumótið í Hollandi sumarið 2017. Hún var hins vegar ekki valin í fyrsta landsliðshóp Jóns Þórs Haukssonar fyrir vináttuleik gegn Skotlandi síðar í mánuðinum.

„Ég verð að segja að það kom mér á óvart. Næstu dagar á eftir voru erfiðir og ég gaf mér nokkra daga á eftir til þess að vera svekkt og sár. En það þýðir ekki að væla og skæla, það þarf að halda áfram og gefa í. Hópurinn er mjög sterkur og í raun jákvætt hvað eru margir góðir leikmenn að velja úr. Það er örugglega ekki auðvelt fyrir þjálfarana að velja hópinn. Ég virði þeirra starf. Ég er að fá nýjar áskoranir núna og það mun vonandi bæta mig sem leikmann,“ sagði Sandra.

Í framhaldi af umræðu við blaðamann um landsliðið þá minnist Sandra á erfiðleika sem hún hefur gengið í gegnum síðustu misseri.

Sandra María Jessen í leik með Þór/KA.
Sandra María Jessen í leik með Þór/KA. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Opnar sig um feimnismál í íþróttum

„Síðastliðnir mánuðir hafa verið mjög erfiðir andlega. Ég hef upplifað það að lenda hálfpartinn á vegg, sem er oft feimnismál í íþróttum en samt mikið vandamál í samfélaginu. Þetta landsliðsval minnti mig á hvað fótbolti skiptir mig miklu máli og það finnst mér jákvætt. Ég ætla að halda í þá tilfinningu og hún mun hjálpa mér að gera ennþá betur. Ég hef upplifað mótlæti á ferlinum áður, eins og að slíta krossband tvisvar, og hingað til hef ég komið sterkari til baka. Ég verð að vona og trúa að ég geri það líka núna,“ sagði Sandra.

En hvað hefur valdið þessum erfiðleikum?

„Ég held þetta sé samansafn af mörgum hlutum. Það hefur verið mikið álag á mér undanfarin ár og ég hef lent í áföllum á ferlinum. Áhuginn fór pínu dvínandi og eins hvatningin að gera vel. Þess vegna tók ég líka góðan tíma í það að taka ákvörðun núna. Ég vildi taka rétt skref, en ekki bara fara til að fara,“ sagði Sandra.

En er hún alfarið búin að komast yfir þetta, eða er hún enn að vinna í sjálfri sér?

„Þetta er ennþá í vinnslu. Ég er búin að gera margt til þess að reyna að vinna í mínum málum. Eins og ég sagði með landsliðsvalið, það er hundfúlt og allt það, en gerði mér grein fyrir því hvað ég hef mikinn áhuga fyrir þessu og að þetta skiptir mig mestu máli. Leiðin liggur bara upp á við. Ég er að fara út, verð að nýta það til þess að bæta mig. Ekki síst andlega eins og líkamlega. Ég verð að vera klár þegar kallið kemur í landsliðið. Það mun koma, og það er undir mér komið að vera tilbúin þá,“ sagði Sandra María Jessen við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert