Higuaín til Chelsea á næstu 48 tímum

Gonzalo Higuaín er á leið til Chelsea.
Gonzalo Higuaín er á leið til Chelsea. AFP

Gonzalo Higuaín mun ferðast til London á næstu 48 tímum og skrifa undir lánssamning við enska knattspyrnufélagið Chelsea sem gildir út leiktíðina. Higuaín var að láni hjá AC Mílan frá Juventus fyrri hluta leiktíðarinnar. 

Higuaín vill ólmur spila fyrir Mauruzio Sarri, knattspyrnustjóra Chelsea, en þeir náðu afar vel saman hjá Napóli á sínum tíma. Áhugi er hjá öllum aðilum að Higuaín verði áfram hjá Chelsea eftir leiktíðina. 

Koma Higuaín þýðir að öllum líkindum að Alvaro Morata fari frá Chelsea og er Atlético Madríd líklegur næsti áfangastaður Spánverjans. Að sögn Guardian hefur Chelsea einnig mikinn áhuga á að fá miðjumann til liðs við sig, áður en félagsskiptaglugginn lokar um mánaðamótin. 

mbl.is