Juventus jók forskotið

Leikmenn Juventus fagna einu af mörkum sínum í kvöld.
Leikmenn Juventus fagna einu af mörkum sínum í kvöld. AFP

Juventus jók forskot sitt á toppi ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu í kvöld í níu stig þegar liðið vann öruggan 3:0 heimasigur gegn botnliði Chievo.

Douglas Costa og Emré Can skoruðu fyrir meistarana í fyrri hálfleik og sex mínútum fyrir leikslok innsiglaði Daniele Rugani sigur þeirra þegar hann skoraði þriðja markið. Cristiano Ronaldo fékk gullið tækifæri á að skora sitt 15. mark í deildinni en Portúgalanum brást bogalistin úr vítaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks.

Juventus, sem er ósigrað eftir 20 umferðir í deildinni, er með 56 stig í toppsæti deildarinnar, Napoli hefur 47 og Inter er í þriðja sætinu með 40.

mbl.is