Leit hefur engan árangur borið

Emiliano Sala í búningi Nantes, þaðan sem hann var seldur …
Emiliano Sala í búningi Nantes, þaðan sem hann var seldur til Cardiff. AFP

Enn er leitað að flugvélinni sem hvarf af ratsjám yfir Ermarsundi í gærkvöldi, en ásamt flugmanni var um borð Emiliano Sala sem gekk í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Cardiff um helgina. Engar nýjar vísbendingar hafa komið fram.

Vélin hvarf af ratsjám um klukkan 20.30 í gærkvöldi, en erfið skilyrði til leitar gerðu björgunarfólki erfitt fyrir. Var ölduhæð þá um tveir metrar og mikil rigning. Farið var af stað aftur í birtingu í morgun og eru skilyrði góð að sögn yfirvalda, þótt þau hafi farið versnandi eftir því sem liðið hefur á daginn. Leitað er með tveimur flugvélum, tveimur þyrlum og á báti.

„Við erum að leita að einhverju sem gæti verið úr flugvél. Leitað er að björgunarbát, björgunarvestum og mönnum í sjónum,“ er haft eftir yfirvöldum. Leitin hefur engan árangur borið.

Greint hefur verið frá því að ekkert neyðarkall hafi borist frá vélinni og að sögn þeirra sem skipuleggja leitina eru litlar líkur á því að Sala og flugmaðurinn muni finnast á lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert