Ronaldo dæmdur fyrir skattsvik

Cristiano Ronaldo mætir í réttarsal í morgun.
Cristiano Ronaldo mætir í réttarsal í morgun. AFP

Portúgalska knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo mætti í morgun í réttarsal í Madríd þar sem hann svaraði fyrir ákæru er varðar skattalagabrot hans.

Ronaldo, sem nú spilar með Juventus á Ítalíu og spilaði með liðinu í gær, óskaði eftir því að gefa skýrslu í gegnum fjarskiptabúnað en dómari hafnaði því. Honum er gefið að sök að hafa svikist undan skatti á Spáni árin 2011 til 2014 þegar hann var leikmaður Real Madrid og búsettur í spænsku höfuðborginni. Er talið að hann hafi svikist um að borga um 15 milljónir evra.

Ronaldo er sagður hafa gert samning við saksóknara og játaði þess vegna brot sín. Hluti af samningnum var að hann yrði dæmdur í 23 mánaða fangelsi, en dómar sem eru undir tveimur árum fyrir brot sem ekki varða ofbeldi eru venjulega skilorðsbundnir á Spáni. Hann mun því ekki þurfa að sitja inni. Þá þarf Ronaldo að borga tæplega 19 milljónir evra í skaðabætur.

Mikið fjölmiðlafár var í kringum dómshúsið í morgun þegar Ronaldo mætti.  Upp komst um málið árið 2017, en lögfræðingar Ronaldo héldu því lengi vel fram að um misskilning væri að ræða. 

Ronaldo er ekki eina stjarnan úr spænskri knattspyrnu sem hefur svikið undan skatti. Lionel Messi og Neymar hafa einnig verið kærðir fyrir slíkt.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is