Ákveðið að hætta leit að vélinni

Emiliano Sala er minnst víða.
Emiliano Sala er minnst víða. AFP

Ákveðið hefur verið að hætta leit að flugvélinni sem var með Emiliano Sala, nýjasta leikmann Cardiff, innanborðs en hennar hefur verið saknað eftir að hún hvarf af ratsjám á mánudagskvöld.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem björgunaraðilar sendu frá sér nú síðdegis. Þar segir að um afar erfiða ákvörðun sé að ræða, en búið sé að leita á gríðarlega stóru svæði án þess að neitt hafi fundist. Leit hafi því verið hætt nema nýjar vísbendingar líti dagsins ljós.

„Þrátt fyrir að hafa leitað á stóru svæði, víða oftar en einu sinni, og greint gervihnattamyndir þá höfum við ekki fundið neitt sem gæti bent okkur á slóðina hvar flugvélina, flugmanninn eða farþegann væri að finna.

Við höfum leitað samtals í rúmlega 24 klukkustundir, alls flogið þremur flugvélum og fimm þyrlum í rúmlega 80 stundir og einnig haft báta að störfum. Við höfum farið vel yfir allar vísbendingar sem okkur hafa borist og höfum tekið þá erfiðu ákvörðun að hætta leit,“ segir í tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að lífslíkur séu afskaplega litlar, en Sala var einn í vélinni ásamt flugmanninum David Ibbotson, 60 ára Englendingi.

„Aðstendur hafa verið látnir vita af þessari ákvörðun og hugur okkar er hjá fjölskyldum þeirra beggja á þessari erfiðu stundu. Þetta hefur verið mjög ítarleg leit og við viljum þakka fyrir veitta aðstoð. Þrátt fyrir að við séum ekki lengur að leita mun málið enn vera í rannsókn og við munum beina því til allra báta og flugvéla á svæðinu að hafa augun opin. Þau tilmæli munu alltaf gilda,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert