Rakel til Reading – Vonast til að ná Arsenal

Rakel Hönnudóttir.
Rakel Hönnudóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta kom upp fyrir svona tveimur vikum og mér leist strax mjög vel á,“ sagði Rakel Hönnudóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við mbl.is en hún hefur samið við enska félagið Reading til loka tímabilsins 2019-2020.

Rakel, sem spilaði með Þór/KA og Breiðabliki hér á landi, spilaði síðast með liði Lim­hamn Bun­keflo í Svíþjóð og átti stóran þátt í því að bjarga liðinu frá falli úr sænsku úrvalsdeildinni. Hún skoraði í fimm af síðustu sex leikjum tímabilsins er LB vann fjóra af síðustu fimm leikjum sínum og endaði tveimur stigum frá fallsæti. Hún endaði markahæst hjá liðinu með átta mörk.

Hún ákvað eftir að tímabilinu lauk að yfirgefa félagið og hafði úr ýmsum möguleikum að velja eftir góða frammistöðu á sínu fyrsta tímabili í Svíþjóð.

„Það var gaman að fá smá athygli og að geta valið úr nokkrum liðum. Ég var með fyrirspurnir frá nokkrum löndum og gat aðeins valið, en mér fannst England mest spennandi. Ég er búin að fylgjast með þessari deild og hvernig hún hefur verið á uppleið. Mér hefur fundist þetta mjög spennandi í langan tíma og þegar þetta kom upp þá lagði ég áherslu á það við umboðsmanninn minn að þetta væri það sem mig langaði mest,“ sagði Rakel.

Rakel Hönnudóttir í landsleik gegn Þjóðverjum í haust.
Rakel Hönnudóttir í landsleik gegn Þjóðverjum í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vonast til að ná fyrsta leik gegn Arsenal

Rakel segist hafa verið í viðræðum við þrjú ensk félög en hafi á endanum valið Reading. Liðið er í fimmta sæti af 11 liðum í efstu deild á Englandi og segir Rakel að uppgangurinn í enskri kvennaknattspyrnu sé mikill

„Þessi deild hefur verið á mikilli uppleið síðastliðin þrjú ár eða svo. Búið er að breyta fullt af reglum svo öll liðin í efstu deild eru orðin atvinnumannalið. Hér eru engir leikmenn að gera neitt annað en að spila fótbolta, svo það er mjög gott. Þetta er svo enn á mikilli uppleið og ég hlakka til að sjá hvernig þetta verður,“ sagði Rakel.

Deildarkeppninni í Svíþjóð lauk í október og hefur Rakel tekið sér góðan tíma til þess að ákveða næstu skref, þó að hún hafi viljað koma sínum málum á hreint fyrr. Hún segir þennan tíma hafa þó verið þess virði og það er greinilegt á henni hversu spennt hún er fyrir þessu skrefi.

„Núna er ég bara fegin hvað þetta tók langan tíma, því ég er mjög spennt fyrir þessu. Það er allt á uppleið og flest liðin í ensku deildinni eru að setja mikinn pening í þetta og eru að gera miklu meira fyrir kvennaboltann en áður. Ég er mjög ánægð með þessa lendingu,“ sagði Rakel.

Næsti leikur Reading er strax á sunnudaginn, gegn Arsenal, en ekki er víst að hún verði komin með leikheimild í tæka tíð.

„Það væri ekki leiðinlegt að ná þeim leik. Ég er að vonast til þess að allt verði orðið klárt fyrir sunnudaginn, en það er ekki 100% víst. Ég er eiginlega bara að bíða og vona,“ sagði Rakel, sem á að baki 94 landsleiki fyrir Íslands hönd og hefur í þeim skorað sjö mörk. Hún er 10. leikjahæsta landsliðskona Íslands frá upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert