Gamall risi með stóran aðdáendahóp

Adam Örn Arnarson er orðinn leikmaður Górnik Zabrze.
Adam Örn Arnarson er orðinn leikmaður Górnik Zabrze. Ljósmynd/Gornikzabrze.pl

„Það er þægilegt að vera búinn að semja við nýtt félag. Mér líst mjög vel á þetta. Liðið er í næstneðsta sæti en það er stutt í næstu lið. Ég er tilbúinn í þá baráttu," sagði Adam Örn Arnarson í samtali við mbl.is í kvöld. Adam samdi við pólska knattspyrnufélagið Górnik Zabrze í dag, en liðið er í botnbaráttu í efstu deild. 

„Það er allt mjög fagmannlegt hérna og vel staðið að öllu. Liðsfélagarnir líta vel út og ég er spenntur að fara af stað," bætti hann við. Adam æfði með liðinu í nokkurn tíma og spilaði vináttuleik, áður en hann skrifaði undir samninginn. 

Górnik Zabrze hefur 14 sinnum orðið pólskur meistari, sem er met. Frá 1957 til 1967 varð liðið átta sinnum Póllandsmeistari og tvívegis bikarmeistari. Liðið fór svo alla leið í úrslitaleik Evrópukeppni bikarhafa árið 1970 þar sem það beið lægri hlut fyrir Manchester City. Adam er því að semja við stórt félag. 

Adam Örn í nýju treyjunni.
Adam Örn í nýju treyjunni. Ljósmynd/gornikzabrze.pl

„Þetta er mjög stór klúbbur í Póllandi. Frá 1960 til 1970 vann þetta félag fullt af titlum. Þetta er gamall risi með flottan völl og stóran aðdáendahóp. Það er enn verið að klára að byggja nýja völlinn. Það er ein hlið eftir, en stúkan er stór og flott."

Bjóst alltaf við að fara

Adam lék síðast með Álasundi í B-deild Noregs og var ljóst að hann yrði ekki áfram hjá félaginu þegar ljóst var að það færi ekki upp um deild. 

„Það var ekki að fara að ganga upp eftir að liðið komst ekki upp. Ég talaði við þá síðasta sumar og þá höfðu þeir áhuga á að endursemja við mig, en þeir vissu ekki hvernig peningamálin yrðu, ef þeir kæmust ekki upp. Ég bjóst alltaf við því að fara ef liðið færi ekki upp. 

Ég vildi líka fara ef liðið kæmist ekki upp. Ég vildi spila í efstu deild og eiga þá meiri möguleika að spila með landsliðinu. Við funduðum eftir tímabilið og vorum sammála um að ég myndi fara eitthvað annað."

Adam er spenntur fyrir því að búa í Póllandi, en hann mun væntanlega búa í næsta bæ við Zabrze, þar sem Piast Gliwice, erkifjendur nýja félagsins, eru staðsettir. 

Adam Örn Arnarson á æfingu með Górnik Zabrze
Adam Örn Arnarson á æfingu með Górnik Zabrze Ljósmynd/gornikzabrze.pl

„Ég er ekki búinn að skoða mikið, enda búinn að vera stutt hérna. Ég er eitthvað búinn að keyra um í Zabrze og í Gliwice hérna við hliðina á. Ég mun sennilega búa í Gliwice, þar sem gamall liðsfélagi úr Álasundi býr. Gliwice og Górnik Zabrze eru erkifjendur."

Adam er uppalinn hjá Breiðabliki, eins og Árni Vilhjálmsson sem leikur með Termalica Nieciecza í B-deild Póllands. Böðvar Böðvarsson leikur svo með Jagiellonia Bialystok sem er í efstu deild. 

„Ég heyrði bæði í Árna og Böðvari. Ég vissi ekki mikið um þetta svo ég vildi ráðfæra mig við þá. Þeir mæltu með þessu, eftir það ákvað ég að hitta liðið í æfingaferð til að skoða þetta betur. Þeir ýttu undir að kíkja á þetta," sagði Adam Örn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert