Alfreð fór meiddur af velli

Alfreð Finnbogason fór af velli á 68. mínútu gegn Werder …
Alfreð Finnbogason fór af velli á 68. mínútu gegn Werder Bremen vegna meiðsla. AFP

Framherjinn Alfreð Finnbogason var í byrjunarliði Augsburg í dag í þýsku 1. deildinni í knattspyrnunni þegar liðið sótti Werder Bremen heim en leiknum lauk með stórsigri Werder Bremen, 4:0.

Það voru þeir Milot Rashica, Johannes Eggestein og Kevin Mohwald sem skoruðu mörk Werder Bremen en staðan að loknum fyrri hálfleik var 3:0, Werder Bremen í vil. Alfreð byrjaði í fremstu víglínu hjá Augsburg en hann skoraði þrennu um síðustu helgi gegn Mainz í deildinni.

Alfreð var skipt af velli í dag á 68. mínútu fyrir Andre Hahn en samkvæmt twittersíðu Augsburg fór Alfreð af velli vegna meiðsla. Framherjinn hefur verið óheppinn með meiðsli, undanfarin tvö tímabil, en samkvæmt twittersíðunni eru meiðslin ekki talin alvarleg.

mbl.is