Reus ekki með gegn Tottenham

Marco Reus missir í það minnsta af fyrri leik Dortmund …
Marco Reus missir í það minnsta af fyrri leik Dortmund og Tottenham. AFP

Þýski knattspyrnumaðurinn Marco Reus verður ekki með Borussia Dortmund gegn Tottenham á miðvikudag er liðin mætast í fyrri leik sínum í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta. Reus er að glíma við meiðsli í læri.

Búast má við að Englendingurinn Jadon Sancho verði í byrjunarliði Dortmund í hans stað, en Sancho skoraði í 3:3-jafntefli Dortmund gegn Hoffenheim í þýsku deildinni um helgina í fjarveru Reus. 

Að flestra mati er Reus búinn að vera besti leikmaður Dortmund á leiktíðinni. Hann er búinn að skora 13 mörk og leggja upp 9 í 19 deildarleikjum til þessa. Óvíst er hvort Reus verði klár í slaginn er liðin mætast í annað skipti 5. mars næstkomandi. 

Fyrri leikurinn fer fram á Wembley og sá síðari á Signal Iduna Park, heimavelli Dortmund.

mbl.is