Erfitt að aðlagast menningunni

Andrés Iniesta.
Andrés Iniesta. AFP

Andrés Iniesta, fyrrverandi leikmaður Barcelona, segir að það hafi verið erfitt að aðlagast japönsku menningunni en hann gekk í raðir japanska úrvalsdeildarliðsins Vissel Kobe á síðasta ári.

Iniesta lauk 22 ára glæsilegum ferli sínum hjá Barcelona í sumar og tók tilboði Vissel Kobe sem leikur í efstu deild í Japan.

„Það hefur ekki verið auðvelt að aðlagast lífinu í Japan, hvorki varðandi fótboltann né persónulega,“ segir Iniesta í viðtali við spænska blaðið Diaro Sport.

„Japanska menningin er svo frábrugðin okkar eigin en ég og kona mín höfum notið reynslunnar á meðan börnin okkar hafa átt mun auðveldara með að komast inn í hlutina. Menningin hér er miklu rólegri. Þú sérð það í kringum þig og á leikvöngunum sem og inni á vellinum.

Það er mikill stuðningur en ekki sömu lætin og þeir takast á við ósigra á annan hátt,“ segir hinn 34 ára gamli Iniesta, sem varð níu sinnum Spánarmeistari með Barcelona, vann spænsku bikarkeppnina sex sinnum og Evrópumeistaratitilinn fjórum sinnum og þá varð hann bæði heims- og Evrópumeistari með spænska landsliðinu.mbl.is