Alfreð frá keppni næstu vikurnar

Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. AFP

„Ég verði frá keppni í einhverjar vikur en það er erfitt að segja nákvæmlega hversu lengi,“ sagði landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason í samtali við mbl.is en Alfreð fór meiddur af velli í leik Augsburg og Werder Bremen í þýsku Bundesligunni á sunnudaginn.

Alfreð varð fyrir meiðslum í kálfa og þurfti að fara af velli á 68. mínútu leiksins en það voru einmitt meiðsli í kálfanum sem héldu honum frá keppni í fyrstu fimm leikjunum á leiktíðinni og þá missti hann af tveimur leikjum sinna manna í nóvember.

Alfreð hefur spilað 14 af 21 leik Augsburg í deildinni en er engu að síður langmarkahæstur leikmanna liðsins með 10 mörk og er í 7.-10. sæti yfir markahæstu leikmenn í deildinni. Hann hefur skorað tvær þrennur á tímabilinu og er sá eini í deildinni sem hefur afrekað það á tímabilinu. Það verður mikil blóðtaka fyrir Augsburg að spila án Alfreðs en liðið er í bullandi fallhættu, er í 15. sæti af 18 liðum, þremur stigum frá fallsæti. Augsburg mætir meisturum Bayern München í deildinni á föstudaginn.

Alfreð verður í kapphlaupi við tímann að ná sér góðum af meiðslunum fyrir fyrstu leiki íslenska landsliðsins í undankeppni Evrópumótsins 2020 en Ísland spilar tvo útileiki í mars, 22. mars gegn Andorra og þremur dögum síðar á móti heimsmeisturum Frakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert