Marcelo er of þungur

Marcelo.
Marcelo. AFP

Brasilíski vinstri bakvörðurinn Marcelo, leikmaður Evrópumeistara Real Madrid, hefur þurft að gera sér að góðu að verma varamannabekkinn í síðustu leikjum liðsins.

Í fyrsta skipti í fjögur ár var Marcelo ekki í byrjunarliði Real Madrid í útsláttarkeppni í Meistaradeildinni þegar Madridarliðið vann 2:1 útisigur gegn Ajax í fyrrakvöld. Hinn 22 ára gamli Sergio Reguilon lék í vinstri bakvarðarstöðunni.

Santiago Solari þjálfari Real Madrid er ekki ánægður með líkamlegt ástand Marcelo og þjálfarinn hefur farið fram á það við Brasilíumanninn að hann taki af sér 3 kíló, breyti matarvenjum sínum og leggi harðar að sér á æfingum. Að öðrum kosti mun hann ekki stilla honum upp í byrjunarliðinu.

„Ég hef átt erfitt uppdráttar í leikjum mínum en nú þarf ég að koma mér í keppnisform og fá sjálfstraustið til baka,“ segir Marcelo í samtali við spænska blaðið AS.

Marcelo er 30 ára gamall og hefur spilað með Real Madrid frá árinu 2007. Hann hefur frá þeim tíma unnið spænska meistaratitilinn fjórum sinnum, spænsku bikarkeppnina tvisvar og Meistaradeildina fjórum sinnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert