Anfield er versti völlurinn

Arjen Robben er ekki hrifinn af Anfield.
Arjen Robben er ekki hrifinn af Anfield. AFP

Arjen Robben, leikmaður Bayern München, segir Anfield, heimavöll Liverpool, vera versta völl sem hann hefur spilað á. Robben heimsótti Anfield reglulega er hann var leikmaður Chelsea.

Hann hefur í þrígang fallið úr leik á Anfield í Meistaradeildinni, tvisvar með Chelsea og einu sinni Real Madríd. Robben og liðsfélagar hans í Bayern mæta Liverpool í Meistaradeildinni á þriðjudaginn kemur og fær Robben þá að heimsækja Anfield enn á ný. 

„Versti völlur sem ég veit um er Anfield. Það er alltaf einn völlur sem þér líkar ekki vel við og það er alltaf einn andstæðingur sem þér finnst skemmtilegra að mæta,“ sagði Robben við Daily Mail. „Liverpool er ekki í uppáhaldi,“ bætti hann við. 

Liverpool var ekki nálægt því að verða enskur meistari á meðan Robben spilaði með Chelsea, en er nú í harðri toppbaráttu. „Þeir eru búnir að þróast vel. Þeir voru í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðasta ári og eru við toppinn,“ sagði Robben. 

mbl.is