Enginn draumur en fín úrslit

Jürgen Klopp fylgist með leiknum í kvöld.
Jürgen Klopp fylgist með leiknum í kvöld. AFP

„Við gerðum okkur erfitt fyrir með síðustu sendingunni í dag. Við komumst mjög oft í góðar stöður en svo rann það út í sandinn,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir markalaust jafntefli við Bayern München í 16-liða úrslitum í Meistaradeild Evrópu í fótbolta í kvöld. 

Þrátt fyrir markaleysið var leikurinn skemmtilegur í fyrri hálfleik og bæði lið fengu færi. Seinni hálfleikurinn var hins vegar rólegri. 

„Við fengum góð færi í fyrri hálfleik en ég man ekki eftir einu einasta færi í seinni hálfleik. Þetta var ekki Meistaradeildarkvöld að mínu mati. Þetta eru engin draumaúrslit, en fín úrslit engu að síður og við gerðum vel í að halda hreinu án Virgil van Dijk,“ sagði Klopp. 

mbl.is