Kristján Flóki féll á læknisskoðun

Kristján Flóki Finnbogason var mættur til Póllands og kominn í …
Kristján Flóki Finnbogason var mættur til Póllands og kominn í treyju Arka Gdynia. Ljósmynd/arka.gdynia.pl

Knattspyrnumaðurinn Kristján Flóki Finnbogason var búinn að ná samkomulagi um samning við pólska úrvalsdeildarfélagið Arka Gdynia. Hann féll hins vegar á læknisskoðun hjá félaginu og verður því ekkert úr félagsskiptunum.

„Ég er búinn að vera að glíma við ökklameiðsli síðan í landsliðsverkefninu í janúar síðastliðinn og þeir voru ekki tilbúnir að taka sénsinn á því, svo þetta gengur ekki í gegn. Þeir eru á miðju tímabili og leist ekki á útlitið á ökklanum mínum,“ sagði Kristján Flóki svekktur í samtali við mbl.is. 

„Þetta hefði verið frábært tækifæri fyrir mig, en ég finn eitthvað annað í staðinn,“ bætti hann við. Kristján Flóki er því enn samningsbundinn norska félaginu Start til næstu tveggja ára, en hann viðurkennir að hugurinn leiti annað. 

„Ég á enn tvö ár eftir af samningi mínum við Start. Ég þarf að taka það samtal með þjálfaranum og komast að einhverri niðurstöðu varðandi það. Markmiðið er að koma sér burt frá Start og í sterkari deild,“ sagði Kristján Flóki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert