Liverpool sló Bayern út - Dregið á föstudag

Nú er orðið ljóst hvaða átta lið verða í skálinni þegar dregið verður í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á föstudaginn. Liverpool og Barcelona tryggðu sig áfram í kvöld.

Manchester City, Manchester United, Tottenham, Juventus, Porto og Ajax verða einnig í skálinni í hádeginu á föstudag. Þar með verða fjögur ensk lið með en engar reglur gilda um það hvaða lið geta mæst í 8-liða úrslitunum.

Liverpool sló Bayern München út með 3:1-sigri í Þýskalandi í kvöld. Sadio Mané kom Liverpool yfir í fyrri hálfleik en Bayern jafnaði þegar Joel Matip skoraði sjálfsmark. Virgil van Dijk kom Liverpool í 2:1 um miðjan seinni hálfleik með frábærum skalla og Bayern átti engin svör við því. Mané innsiglaði verðskuldaðan sigur Liverpool með öðru marki sínu seint í leiknum. Það eina sem skyggði á sigur Liverpool í kvöld var að skoski bakvörðurinn Andrew Robertson skyldi fá gult spjald í uppbótartíma, en hann verður þar af leiðandi í leikbanni í fyrri leiknum í 8-liða úrslitunum.

Lionel Messi skoraði tvö mörk fyrir Barcelona sem vann Lyon af öryggi, 5:1, en liðin höfðu gert markalaust jafntefli í fyrri leik sínum, rétt eins og Liverpool og Bayern. Lyon átti von þegar kortér var eftir, í stöðunni 2:1, en Börsungar röðuðu inn mörkum í lokin.

Bayern - Liverpool, 1:3 (samtals 1:3)
(Joel Matip (sjálfsmark) 39. - Sadio Mané 26., 84., Virgil van Dijk 69.)
Barcelona - Lyon, 5:1 (samtals 5:1)
(Lionel Messi 18. (víti), 78., Philippe Coutinho 31., Gerard Pique 81., Ousmane Dembélé 86. - Lucas Tousart 58.)

Bayern 1:3 Liverpool opna loka
90. mín. Andrew Robertson (Liverpool) fær gult spjald Úff, klaufaskapur. Leiktíminn alveg að fara að renna út þegar Robertson brýtur af sér og fær gult spjald. Þar með missir hann af fyrri leiknum í 8-liða úrslitum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert