Liverpool sló Bayern út - Dregið á föstudag

Nú er orðið ljóst hvaða átta lið verða í skálinni þegar dregið verður í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu á föstudaginn. Liverpool og Barcelona tryggðu sig áfram í kvöld.

Manchester City, Manchester United, Tottenham, Juventus, Porto og Ajax verða einnig í skálinni í hádeginu á föstudag. Þar með verða fjögur ensk lið með en engar reglur gilda um það hvaða lið geta mæst í 8-liða úrslitunum.

Liverpool sló Bayern München út með 3:1-sigri í Þýskalandi í kvöld. Sadio Mané kom Liverpool yfir í fyrri hálfleik en Bayern jafnaði þegar Joel Matip skoraði sjálfsmark. Virgil van Dijk kom Liverpool í 2:1 um miðjan seinni hálfleik með frábærum skalla og Bayern átti engin svör við því. Mané innsiglaði verðskuldaðan sigur Liverpool með öðru marki sínu seint í leiknum. Það eina sem skyggði á sigur Liverpool í kvöld var að skoski bakvörðurinn Andrew Robertson skyldi fá gult spjald í uppbótartíma, en hann verður þar af leiðandi í leikbanni í fyrri leiknum í 8-liða úrslitunum.

Lionel Messi skoraði tvö mörk fyrir Barcelona sem vann Lyon af öryggi, 5:1, en liðin höfðu gert markalaust jafntefli í fyrri leik sínum, rétt eins og Liverpool og Bayern. Lyon átti von þegar kortér var eftir, í stöðunni 2:1, en Börsungar röðuðu inn mörkum í lokin.

Bayern - Liverpool, 1:3 (samtals 1:3)
(Joel Matip (sjálfsmark) 39. - Sadio Mané 26., 84., Virgil van Dijk 69.)
Barcelona - Lyon, 5:1 (samtals 5:1)
(Lionel Messi 18. (víti), 78., Philippe Coutinho 31., Gerard Pique 81., Ousmane Dembélé 86. - Lucas Tousart 58.)

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Bayern 1:3 Liverpool opna loka
90. mín. Leik lokið Liverpool slær Bayern út og verður í skálinni þegar dregið verður á föstudaginn!
mbl.is