Ætti að banna Suárez fyrir lífstíð

Luis Suárez fiskaði vítaspyrnuna sem Lionel Messi skoraði fyrsta mark ...
Luis Suárez fiskaði vítaspyrnuna sem Lionel Messi skoraði fyrsta mark Barcelona úr gegn Lyon í gær. AFP

Ýmsir eru þeirrar skoðunar að vítaspyrnan sem Barcelona fékk og skoraði sitt fyrsta mark úr gegn Lyon í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í gær hafi verið ranglega dæmd.

Dæmd var vítaspyrna þegar Luis Suárez féll við í teignum og úr henni skoraði Lionel Messi og kom Barcelona í 1:0. Barcelona vann leikinn að lokum 5:1 og flaug áfram í 8-liða úrslit keppninnar.

Moisés Hurtado, fyrrverandi leikmaður Espanyol og nú þjálfari í unglingaakademíu félagsins, er einn þeirra sem eru á því að Jason Denayer hafi ekki verið brotlegur þegar vítaspyrnan var dæmd. Hann telur að Suárez hafi viljandi stigið á Denayer til þess að „búa til brot“. Suárez er ekki beinlínis með „hreint sakavottorð“ á fótboltavellinum, eftir að hafa í gegnum tíðina meðal annars bitið þrjá andstæðinga sína og fengið löng keppnisbönn. Síðustu ár hefur hann þó þótt haga sér betur en ekki nógu vel að mati Hurtado.

„Þarna er L. Suárez... leikmaður sem ætti að vera bannaður fyrir lífstíð því hann reynir alltaf að blekkja dómarana og tekst það, hvort sem notast er við VAR eða ekki, og hjálpar liðinu sínu í næstu umferð,“ skrifaði Hurtado á Twitter.

Eduardo Iturralde Gonzalez, fyrrverandi FIFA-dómari, sagði við spænsku útvarpsstöðina Cadena SER að fyrir sitt leyti hefði ekki verið um vítaspyrnu að ræða. Það hefði verið Suárez sem stigið hefði á varnarmanninn.

Barcelona er nú komið í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar 12. árið í röð.

mbl.is