Giroud skaut Dynamo Kiev í kaf

Olivier Giroud og Willain fagna einu marka Girouds fyrir Chelsea …
Olivier Giroud og Willain fagna einu marka Girouds fyrir Chelsea í Kiev í kvöld. AFP

Olivier Giroud skoraði þrennu fyrir Chelsea í kvöld þegar enska liðið vann auðveldan 5:0 útisigur á Dynamo Kiev í Úkraínu í seinni viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í fótbolta.

Giroud, sem þar með hefur skorað níu mörk í keppninni í vetur, gerði fyrsta, annað og fjórða mark Chelsea en Marcos Alonso skoraði þriðja markið í lok fyrri hálfleiks og Callum Hudson-Odoi það fimmta á 78. mínútu.

Chelsea vann heimaleikinn 3:0 og fór því afar auðveldlega áfram, 8:0 samanlagt, en vonir Dynamo um að ógna Lundúnaliðinu voru að engu orðnar strax á fimmtu mínútu þegar Giroud skoraði fyrsta mark leiksins.

mbl.is