Rekinn eftir sjö marka skellinn

Domenico Tedesco var ekki upplitsdjarfur á hliðarlínunni í Manchester í …
Domenico Tedesco var ekki upplitsdjarfur á hliðarlínunni í Manchester í fyrrakvöld. AFP

Þýska knattspyrnuliðið Schalke fékk háðulega útreið gegn Manchester City í seinni leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fyrrakvöld, 7:0.

Það reyndist vera síðasti leikurinn þar sem Domenico Tedesco var við stjórnvölinn hjá Schalke því félagið tilkynnti fyrir stundu að honum hefði verið sagt upp störfum og Hollendingurinn reyndi Huub Stevens væri kominn enn á ný til félagsins, allavega til bráðabirgða.

Tedesco er aðeins 33 ára gamall, Þjóðverji af ítölskum uppruna, og tók við liðinu fyrir tæpum tveimur árum. Auk ósigranna gegn Manchester City hefur Schalke ekki unnið í sjö síðustu leikjum sínum í þýsku 1. deildinni og hefur sigið þar niður í 14. sætið, fjórum stigum fyrir ofan umspilssæti.

Huub Stevens, sem er 65 ára gamall, er kominn til Schalke í þriðja sinn. Hann þjálfaði liðið á árunum 1996 til 2002 og aftur tímabilið 2011-2012. Hann þjálfaði síðast Hoffenheim tímabilið 2015-16 og gerði ráð fyrir að þar með væri ferlinum lokið.

mbl.is