Stærstu félög Evrópu gætu sniðgengið HM

Gianni Infantino vill breyta HM félagsliða.
Gianni Infantino vill breyta HM félagsliða. AFP

Alþjóða knattspyrnusambandið kynnti í dag tillögur um breytingu á HM félagsliða karla. Sambandið vill 24-liða heimsmeistaramót á fjögurra ára fresti, í stað sjö liða móti á hverju ári, líkt og fyrirkomulagið er í dag. 

Evrópsk félagslið eru hins vegar allt annað en spennt fyrir nýja fyrirkomulaginu og hafa stærstu félög álfunnar hótað að sniðganga keppnina, verði fyrirkomulaginu breytt. Leikir keppninnar gætu rekist á aðra leiki hjá stærstu liðum Evrópu, þar sem leikjaálagið er nú þegar mikið. 

Samband evrópskra félagsliða, sem inniheldur 232 stærstu félög Evrópu, kvörtuðu yfir aðgerðum FIFA og sögðu sambandið ekki hafa ráðfært sig við félagslið í Evrópu, áður en tillagan að fyrirkomulaginu hafi verið lögð fram. 

Gianni Infantino, forseti FIFA, vill að Evrópa fái átta sæti á mótinu, Suður-Ameríka sex og Afríka, Asía og Norður-Ameríka fái þrjú lið hvert. „Heimurinn fær loksins að sjá alvöru heimsmeistaramót félagsliða. Stuðningsmenn fá að sjá bestu lið heims spila um alvöru heimsmeistaratitil," sagði Infantino í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert