Mögnuð þrenna hjá Messi

Lionel Messi skoraði þrjú mögnuð mörk í kvöld.
Lionel Messi skoraði þrjú mögnuð mörk í kvöld. AFP

Lionel Messi skoraði enn og aftur þrennu fyrir Barcelona er liðið vann sannfærandi 4:1-útisigur á Real Betis í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. Öll þrjú mörk Argentínumannsins voru afar falleg. 

Messi kom Barcelona á bragðið á 18. mínútu með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Hann skaut þá af miklum krafti í markmannshornið og átti Pau Lopez í marki heimamanna ekki möguleika. 

Messi bætti við öðru marki sínu í uppbótartíma í fyrri hálfleik. Luis Suárez fékk þá boltann um 20 metra frá marki, lék á varnarmenn og gaf hælsendingu á Messi sem kláraði með glæsibrag með utanfótarskoti og var staðan í hálfleik 2:0. 

Luis Suárez sá um að gera þriðja markið sjálfur. Aftur fór hann fram hjá nokkrum varnarmönnum og í þetta skiptið þurfti hann enga hjálp og var staðan 3:0 á 63. mínútu. Loren Morón lagaði stöðuna fyrir Betis með marki á 82. mínútu. Hann skoraði með fallegu skoti upp í vinkilinn utan teigs. 

Barcelona var hins vegar ekki hætt og Lionel Messi var svo sannarlega ekki hættur. Á 85. mínútu lék hann boltanum á Ivan Rakitic, fékk hann aftur og kláraði með glæsilegri vippu. Stuðningsmenn Real Betis klöppuðu meira að segja fyrir töktunum hans Messi. 

Barcelona er nú með tíu stiga forskot á Atlético Madríd á toppi deildarinnar. Börsungar eru með 66 stig, Atlético er með 56 og Real Madríd er í þriðja sæti með 54 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert