Aron gerði veðmál við þjálfarann

Aron Elís Þrándarson.
Aron Elís Þrándarson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Elís Þrándarson, leikmaður Aalesund í Noregi, setur markið hátt fyrir komandi tímabil í norsku B-deildinni í knattspyrnu.

Aron Elís skoraði þrjú mörk í B-deildinni í fyrra þegar Aalesund var grátlega nálægt því að komast upp í úrvalsdeildina eftir að hafa farið í gegnum erfitt umspil.

„Ég er að leggja hart að mér á æfingum að klára færi og ég mun skora meira en í fyrra. Ég set markmiðið að skora tíu mörk,“ segir Aron Elís við heimasíðu Aalesund. Hann er búinn að gera veðmál við Andrea Loberto, aðstoðarþjálfara liðsins, um að skora tíu mörk eða fleiri.

Aron fór með íslenska landsliðinu til Katar í janúar þar sem liðið spilaði tvo vináttulandsleiki, við Eistland og Svíþjóð.

„Það var mjög góð reynsla. Ég hef talað við Erik Hamrén landsliðsþjálfara og hann var mjög sáttur. Ég veit ég verð að leggja hart að mér til þess að verða valinn í hópinn í undankeppni Evrópumótsins, og ég mun gera það,“ segir Aron Elís Þrándarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert