Er kominn með þýska agann

Aron Ingi Andreasson.
Aron Ingi Andreasson. Ljósmynd/FC Henef

Aron Ingi Andreasson, 18 ára gamall íslenskur knattspyrnumaður, hefur vakið athygli í Þýskalandi fyrir góða frammistöðu með liði FC Hennef, sem leikur í Oberliga eða í fimmtu efstu deildinni í Þýskalandi.

Fjallað var um Aron Inga í þýska blaðinu Kölner Stadt Anzeiger á dögunum en þar er talað um efnilegan, óhræddan og metnaðarfullan leikmann sem er með þýskan aga. Aron hefur búið í Þýskalandi frá 11 ára aldri. Hann lék með unglingaliði FC Hennef en í janúar var hann tekinn inn í karlaliðið og er yngsti leikmaðurinn sem spilar í deildinni.

Grein um Aron Inga í þýska blaðinu Kölner Stadt Anzeiger.
Grein um Aron Inga í þýska blaðinu Kölner Stadt Anzeiger.

Þjálfari liðsins, Sascha Glatzel, segir í viðtali við Kölner Stadt Anzeiger að það sjáist ekki að Aron sé 18 ára gamall og að þessi 1,93 metra hái miðvörður fari óhræddur og áhyggjulaus inn í leikina með liðinu. Þjálfarinn segir að Aron sé langt kominn þrátt fyrir ungan aldur.

„Hann er fljótur, sterkur og mjög góður í fótbolta,“ segir Sascha Glatzel og segja hann og formaður félagsins að þessi deild sem Aron spilar í sé bara byrjunin. Þeir segja við blaðið að þrátt fyrir það að þeir myndu bjóða Aroni fimm ára samningi og þá sjái þeir ekki fram á það að geta haldið honum í sínum röðum fram yfir sumarið.

Aron, sem er uppalinn FH-ingur, er ekki með neitt leyndarmál varðandi framtíð sína. Hann segist vilja taka næsta skref í sumar bæði hvað varðar félagslið og hann stefnir á að fá tækifæri með íslenska U-21 árs landsliðinu í framtíðinni en Aron Ingi á níu leiki að baki með U18 og U19 ára landsliðinu.

Aron er spurður að því í viðtalinu við Kölner Stadt Anzeiger hvort hann sé meiri Þjóðverji heldur en Íslendingur. „Ef Ísland spilar á móti Þýskalandi þá myndi ég klárlega halda með Íslandi,“ segir Aron og bætir því að hann sé búinn að taka til sín þýsku einkennin. „Ég er stundvís og áreiðanlegur og ég er kominn með þýska agann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert