Viðar fór beint í leik

Viðar Örn Kjartansson í æfingaleiknum með Hammarby í dag.
Viðar Örn Kjartansson í æfingaleiknum með Hammarby í dag. Ljósmynd/@Hammarbyfotboll

Knattspyrnumaðurinn Viðar Örn Kjartansson var vart búinn að skrifa undir samning við sitt nýja félag, Hammarby í Stokkhólmi, í dag þegar hann var kominn í búning liðsins og út á völl í æfingaleik.

Hammarby lék gegn C-deildarliðinu Linköping City eftir hádegið. Viðar fór beint í byrjunarliðið og spilaði fyrri hálfleikinn en viðureignin endaði 2:2.

„Já, það var frekar grillað að fara bara beint út á völl. En það er stutt þangað til keppnin í úrvalsdeildinni byrjar og það var gott að komast strax inn í þetta. Ég þurfti á þessum leik að halda,“ sagði Viðar við mbl.is.

Hann er mjög ánægður á nýjum stað. „Já, þetta er frábær borg og ég hlakka til að búa hér. Síðan eru allar aðstæður mjög flottar og allt í kringum klúbbinn. Ég er mjög spenntur fyrir því að byrja," sagði Viðar en Hammarby sækir Elfsborg heim í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar mánudaginn 1. apríl.

Viðar, sem verður í láni hjá Hammarby frá Rostov í Rússlandi fram á mitt sumar, kannast vel við sig í Svíþjóð eftir að hafa leikið með Malmö stóran hluta tímabilsins 2016 en þar varð hann sænskur meistari og næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar, enda þótt hann hafi verið seldur til Maccabi Tel Aviv þegar enn voru tíu umferðir eftir.

„Já, það er gott að vita að hverju maður gengur. Ég átti frekar brösótta byrjun hérna með Malmö á sínum tíma og ef maður er ekki hundrað prósent klár þá getur farið illa. Ég geri allt til þess að vera í toppstandi þannig að ég geti átt góðan tíma hérna,“ sagði Viðar sem telur að Hammarby geti náð langt í sænsku úrvalsdeildinni í ár en liðið endaði í fjórða sæti á síðasta ári.

„Ég held það. Mörg liðanna hafa bætt við sig og eru orðin sterkari, hef ég heyrt. En stefnan hjá liðinu er að ná enn lengra og ég vonast til að geta hjálpað til við það þennan stutta tíma sem ég verð hér,“ sagði Viðar.

Hann á alla vega eftir einn æfingaleik áður en deildin byrjar því Hammarby sækir heim B-deildarlið Mjällby um næstu helgi. Með Mjällby leika Gísli Eyjólfsson og Óttar Magnús Karlsson og þjálfari liðsins er Milos Milojevic, fyrrverandi þjálfari Víkings R. og Breiðabliks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert